Beint í efni

Kostir aðildar

Hvers vegna ættir þú að vera í stéttarfélagi?

Aðild að stéttarfélagi veitir þér aðgang að margvíslegri þjónustu og ráðgjöf. Í aðildinni felst einnig ákveðin trygging þegar á móti blæs. Hér eru nokkur dæmi um hvernig þjónusta og ráðgjöf FHSS getur nýst þér.

Kjarasamningar

Stéttarfélagið tekur virkan þátt bæði í gerð miðlægra kjarasamninga og því að gera stofnana- og fyrirtækjasamninga. Við sinnum eftirfylgni með kjarasamningum og veitum okkar félagsmönnum ráðgjöf og leiðbeiningar varðandi túlkun þeirra og gildissvið.

Dæmigerð erindi tengd kjarasamningum

  • Meðal erinda sem við fáum frá okkar félögum má nefna spurningar varðandi röðun í launaflokka, komandi launahækkanir og fleira.
  • Einnig er algengt að leita til okkar varðandi upplýsingar um orlofsréttindi, veikindadaga og það hvaða reglur gilda um veikindi í orlofi.
  • Loks getum við leiðbeint launagreiðendum um fyrirkomulag greiðslna sem tengjast kjarasamningum starfsmanna þeirra.

Starfsþróun

Félagar í FHSS geta leitað til okkar varðandi undirbúning starfsþróunar- og launaviðtala. Það er mikilvægt að undirbúa sig vel fyrir slík viðtöl, enda eru þau lykilþáttur í starfsþróun og starfsánægju.

Við getum líka veitt ráðgjöf við gerð ráðningarsamninga og aðstoðað okkar félaga við að tryggja að hagsmuna þeirra sé gætt.

Stuðningur vegna uppsagnar

Ef til uppsagnar kemur veitum við okkar félögum ráðgjöf varðandi réttindi þeirra og liðsinnum þeim við að leita réttar síns ef þess gerist þörf.

Sjóðir BHM og orlofskostir

FHSS er aðili að BHM og félagar okkar geta sótt um ýmsa styrki úr sjóðum sem þjónustaðir eru af BHM:

  • Sjúkrasjóður – fyrir félagsmenn sem starfa á almennum vinnumarkaði.
  • Styrktarsjóður – fyrir félagsmenn sem starfa á opinberum vinnumarkaði.
  • Orlofssjóður – fyrir félagsmenn á opinberum og almennum vinnumarkaði.
  • Starfsmenntunarsjóður – fyrir félagsmenn á opinberum og almennum vinnumarkaði.
  • Starfsþróunarsetur háskólamanna – fyrir einstaklinga, stofnanir, stéttarfélög og samningsaðila.

Sótt er um alla ofangreinda styrki gegnum Mínar síður BHM

Þjónustuver BHM veitir félagsmönnum aðildarfélaga upplýsingar og aðstoð vegna umsókna um styrki úr sjóðum bandalagsins, umsókna um orlofskosti o.fl.

Hvernig er sótt um aðild?

Hér á vefnum er skráningarform fyrir aðildarumsóknir, sem verðandi félagar geta fyllt út og sent okkur.

Ef þú hefur spurningar varðandi mögulega aðild, til dæmis hvort að þitt starf falli undir aðildarskilgreiningar félagsins er einfaldast að senda okkur fyrirspurn eða bóka símtal við sérfræðing.

Hvernig tek ég virkari þátt?

Ef þú, sem félagi, hefur áhuga á að taka virkari þátt í starfsemi stéttarfélagsins bendum við á upplýsingar um félagið, þar er meðal annars að finna upplýsingar um aðalfundi félagsins og stjórnarmeðlimi sem geta veitt upplýsingar um leiðir til að gefa kost á sér í ábyrgðarstöður félagsins.