Beint í efni

Lög FHSS

Lög FHSS

Samþykkt á aðalfundi FHSS 25. mars 2021

1. gr. Almennt

Félagið heitir Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Hlutverk og tilgangur

Félagið er stéttarfélag og fer með umboð félagsmanna í kjarasamningum.

Tilgangur félagsins er að vinna að alhliða kjarabótum félagsmanna, vinna að bættri starfsaðstöðu félagsmanna, standa vörð um hagsmuni félagsmanna, vera í fyrirsvari fyrir félagsmenn gagnvart skyldum innlendum og erlendum félagssamtökum og að stuðla að fræðslu félagsmanna um réttindi sem þeir hafa.

3. gr. Félagsaðild

Rétt til aðildar að félaginu eiga eftirfarandi starfsmenn, sem lokið hafa háskólaprófi, enda sé starfið aðalstarf:

· Starfsmenn Stjórnarráðsins og eðlislíkra stofnana,

· félagsmenn sem flytjast tímabundið til annarra starfa hjá ríkinu,

· starfsmenn sérstakra starfseininga og ráðuneytisstofnana í skilningi laga um Stjórnarráð Íslands,

· starfsmenn úrskurðarnefnda í stjórnsýslunni,

· starfsmenn Fjársýslu ríkisins og Hagstofu Íslands.

· Stjórn félagsins er heimilt að taka í félagið starfsmenn Stjórnarráðsins, sem ekki hafa lokið háskólaprófi, hafi þeir menntun, sem að verulegu leyti má jafna við háskólamenntun, enda eigi hagsmunir þeirra samleið með hagsmunum annarra félagsmanna.

4. gr. Kosning stjórnar

Stjórn félagsins skipa 5 fulltrúar sem kosnir skulu á aðalfundi.

Formaður skal kosinn sérstaklega, en stjórnarmenn velja sjálfir varaformann úr sínum hópi og skipta með sér verkum gjaldkera, vefstjóra og ritara.

Kjósa skal tvo varamenn í stjórn sem fyrsta og annan varamann. Taka þeir sæti í stjórn í þeirri röð í forföllum stjórnarmanna.

Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár. Annað árið skal kjósa formann og tvo stjórnarmenn og fyrsta varamann en hitt árið tvo stjórnarmenn og annan varamann. Endurkjör er heimilt en enginn skal þó sitja lengur í stjórn en fjögur kjörtímabil samfellt eða alls átta ár.

Láti þrír eða fleiri stjórnarmenn af störfum á kjörtímabili skal innan mánaðar boða til félagsfundar með a.m.k. viku fyrirvara til þess að kjósa aðra í þeirra stað.

Sé kosið, hvort sem er á aðalfundi eða félagsfundi, í stað stjórnarmanns sem látið hefur af störfum skal sá stjórnarmaður sem við tekur sitja út kjörtímabil þess er lét af störfum.

Kosning stjórnar skal fara fram skriflega og leynilega. Séu aðeins jafnmargir í framboði og kjósa á, teljast þeir réttkjörnir án atkvæðagreiðslu.

5. gr. Hlutverk og kosning skoðunarmanna

Skoðunarmenn reikninga félagsins skulu vera tveir og einn til vara. Skoðunarmenn skulu hafa eftirlit með því að fjármunum félagsins sé varið í samræmi við markmið og tilgang félagsins, yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og skila skriflegri greinargerð undirritaðri af báðum skoðunarmönnum.

Skoðunarmenn skulu ganga úr skugga um að á reikningsárinu hafi verið farið eftir ákvörðunum félagsfunda og stjórnar um öflun, ráðstöfun og ávöxtun fjármuna og önnur atriði í rekstrinum. Telji skoðunarmaður að svo hafi ekki verið skal það tekið fram í framangreindri greinargerð.

Ef skoðunarmaður telur að nauðsynlegar upplýsingar vanti í ársreikninginn eða skýrslu stjórnar eða upplýsingar séu villandi og enn fremur ef hann telur að fyrir liggi atvik sem varðað geti stjórnendur ábyrgð skal hann vekja athygli á því í framangreindri greinargerð. Greinargerð skoðunarmanns telst hluti ársreiknings og skal varðveitt ásamt honum.

Ársreikningar skulu liggja frammi á skrifstofu formanns félagsins til skoðunar fyrir félagsmenn a.m.k. sjö dögum fyrir aðalfund.

Kosning skoðunarmanna reikninga skal fara fram skriflega á aðalfundi. Séu aðeins jafnmargir í framboði og kjósa á, teljast þeir réttkjörnir án atkvæðagreiðslu. Kjörtímabil skoðunarmanna reikninga er tvö ár.

6. gr. Hlutverk og störf stjórnar

Stjórn félagsins hefur æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda. Stjórn tekur ákvarðanir um ráðstafanir á fjármunum félagsins í samræmi við tilgang og markmið þess.

Formaður boðar stjórnarfundi og stjórnar þeim. Formaður gætir þess að allir stjórnarmenn og þeir sem taka að sér störf fyrir félagið ræki skyldur sínar. Formaður hefur umsjón með starfsemi félagsins og eftirlit með því að lögum þess sé framfylgt. Í forföllum formanns og ef formaður lætur af störfum tekur varaformaður við embætti hans.

Gjaldkeri skal leita samþykkis formanns áður en reikningar eru greiddir. Stjórn félagsins fylgist með fjárreiðum félagsins og ber upp reikninga þess á aðalfundi. Stjórn skal láta utanaðkomandi aðila yfirfara reikninga félagsins í lok hvers reikningsárs.

Fundir stjórnar eru lögmætir ef meirihluti stjórnar mætir og ræður afl atkvæða úrslitum. Á fundum stjórnar skulu ritaðar fundargerðir.

Þóknanir til stjórnar, trúnaðarmanna, skoðunarmanna reikninga félagsins og annarra nefnda skulu ákveðnar á aðalfundi félagsins.

Stjórn auglýsir eftir fólki úr röðum félagsmanna í tilfallandi nefndir þegar svo ber undir.

Stjórn skal starfa samkvæmt verklagsreglum, sem birtar eru á heimasíðu félagsins, þar sem meðal annars er kveðið á um ákvarðanaferli, meðferð skjala og ábyrgðar- og verkaskiptingu.

7. gr. Hlutverk trúnaðarmanna

Trúnaðarmaður er fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustaðnum og sem slíkur er hann tengiliður félagsins og starfsmanna. Helstu hlutverk trúnaðarmanns eins og m.a. kemur fram í lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, eru að:

Hafa eftirlit með því að vinnuveitandi fari eftir ákvæðum kjarasamnings, laga og reglugerða um starfskjör og réttindi starfsmanna og grípa til nauðsynlegra aðgerða ef þörf er á.

Meta hvaða ákvæðum kjarasamninga og reglna er æskilegt að breyta til að bæta kjör eða draga úr vanda við framkvæmd og gera stéttarfélaginu grein fyrir því, m.a. þegar staðið er að undirbúningi undir kröfugerð vegna kjarasamninga.

Snúi starfsmaður sér til trúnaðarmanns með umkvartanir sínar ber trúnaðarmanni að rannsaka málið þegar í stað er þær berast eða hann hefur ástæðu til að ætla að gengið sé á rétt starfsmanna. Komist trúnaðarmaður að þeirri niðurstöðu að umkvartanir eða grunur hafi við rök að styðjast ber honum að krefja vinnuveitanda um lagfæringu.

Vera fulltrúi stéttarfélagsins á vinnustað, sjá um að koma boðum frá félagsmönnum til félagsins og frá félaginu til félagsmanna. Kynna félagsmönnum stefnu stéttarfélagsins og verkefni hverju sinni.

Taka á móti nýjum starfsmönnum, kynna þeim starfskjör og réttindi og kynna þeim stéttarfélagið og starfsemi þess.

Fylgjast með framkvæmd vinnuveitanda út frá jafnréttislögum.

8. gr. Trúnaðarmannaráð

Trúnaðarmannaráð skipa trúnaðarmenn hvers ráðuneytis og þeirra stofnana þar sem félagsmenn starfa. Hlutverk trúnaðarmannaráðs er að vera stjórn félagsins til ráðuneytis.

Formaður félagsins er formaður trúnaðarmannaráðs og ritari félagsins sér um skráningu fundargerða.

Trúnaðarmannaráð skal skipa kjörstjórn þriggja manna úr sínum röðum. Kjörstjórn sér um framkvæmd kosninga á vegum félagsins.

9. gr. Aðalfundur

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda í mars ár hvert. Aðalfund skal boða með minnst viku fyrirvara á heimasíðu félagsins og með tölvupósti til félagsmanna. Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað. Stjórn getur ákveðið að aðalfundur fari fram rafrænt á fjarfundi eða sem bæði stað- og fjarfundur og skal þess þá getið í fundarboði. Fara atkvæðagreiðslur - þ.m.t. um formann, stjórnar- og skoðunarmenn, samþykktir og annað - sem jafnan færu fram skriflega þá rafrænt fram.

Dagskrá fundarins skal vera sem hér segir:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

2. Formaður flytur skýrslu stjórnar um félagsstarfið á liðnu starfsári.

3. Lagðir fram til samþykktar yfirfarnir ársreikningar félagsins með áritunum skoðunarmanna.

4. Lagabreytingar lagðar fram.

5. Ákvörðun um félagsgjald og þóknanir fyrir stjórnar- og nefndarstörf.

6. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.

7. Önnur mál sem fram koma eða boðuð hafa verið í fundarboði.

10. gr. Félagsfundur

Stjórn félagsins getur boðað til félagsfundar í félaginu þegar hún telur ástæðu til. Skylt er stjórn þó að boða til fundar ef að minnsta kosti 10 félagsmenn krefjast þess skriflega, enda tilgreini þeir fundarefni.

Félagsfund skal boða með minnst viku fyrirvara á heimasíðu félagsins og með tölvupósti til félagsmanna.

11. gr. Reikningsár

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

12. gr. Lagabreytingar

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Allar breytingartillögur skulu vera skriflegar og hafa borist 15. febrúar. Lagabreytinga skal getið í fundarboði. Breytingar á lögunum ná því aðeins gildi að þær séu samþykktar með tveim þriðju greiddra atkvæða.

13. gr. Gildistaka

Lög þessi öðlast gildi við samþykkt. Jafnframt falla eldri lög félagsins úr gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Á aðalfundi félagsins í mars 2012 skal kjósa formann, tvo stjórnarmenn og fyrsta varamann skv 4. gr.

Lögin tóku gildi 25. mars 2021.