Staða kjaraviðræðna um mitt sumar
Ágæti félagi
Kjarasamningsviðræður hafa farið hægt af stað. Samningsgerðin eru flóknari nú en oft áður þar sem opinberir laungreiðendur ganga til samninga sem ein heild og lýsa sig bundna af samningum á almennum markaði. Stéttarfélög háskólamenntaðra standa á móti þétt saman og hafa áhyggjur kaupmáttarrýrnun háskólamenntaðra og litlum ávinningi háskólamenntunnar.
Kaupmáttarskerðingu á undanfarinna ára má rekja til áherslna á hækkun lægstu launa samfara auknum kostnaði og vaxandi skattbyrði. Þeir samningar sem gerðir hafa verið að undanförnu breyta þessari stöðu ekki heldur lengja áframhaldandi kaupmáttarrýrnun.
Þegar lagt upp með að gera langan samning eða til fjögurra ára eins og við á í þessari samningalotu þarf að vanda sérstaklega til verka. Nokkur munur er því á milli félaga hvort þau leggja þunga áherslu á samninga við ríkið eða sveitarfélögin og veltur það á stærð þeirra hópa og launalegri stöðu eftir viðsemjendum. Einungis tvö háskólafélög hafa þegar samið við ríkið á forsendum BSRB samnings en öll félög eiga enn ósamið við sveitarfélögin og borgina þar sem langt virðist í land.
Opinberir aðilar hafa lagt áherslu á semja fyrst við félög innan ASÍ og BSRB sem bera meira upp úr býtum í með þeim samningum sem gerðir voru á almennum markaði. Nú þegar þeir samningar eru í höfn má ætla að röðin sé komin að háskólafélögum. Mikil samstaða er á meðal háskólafélaga, samráð á milli aðila innan sem utan BHM meira en venja er og það þvert á opinbera vinnumarkaðinn.
FHSS hefur að undanförnu reynt að knýja fram endurnýjun á gildandi stofnanasamningi. Ekki hefur strandað á samningsvilja FHSS í þeim efnum og kröfur félagsins fjarri því að vera óraunhæfar og hafa helst miðast við aðra stofnanasamninga sem sérfræðingar ríkisins njóta. FHSS heldur áfram að vinna að bættum stofnanasamningi og freistar þess nú að ganga frá stofnanasamningi samhliða kjarasamningi. Þetta er aðferðarfræði sem er vel þekkt í því flókna samningaumhverfi sem nú þekkist.
Höfum hugfast að þessari samningalotu mun ljúka með samningum eins og alltaf. Höfum einnig hugfast að í allri kjarabaráttu er samstaða grundvallarskilyrði til að árangur náist. Eins og ávallt leggja aðilar sig fram um að ljúka samningum sem fyrst en þó ávallt með það að marki reyna til fulls að ná fram kjarabótum fyrir félagsfólk.
Ekki hika við að við að hafa samband við okkur með spurningar í síma 595-5143 eða með tölvupósti í fhss@fhss.is, hvort sem þær tengjast kjarasamningsviðræðum, einstaklingsmálum, ráðgjöf eða hvaðeina sem snýr að málefnum félagsins. Öll tækifæri til að heyra raddir félagsfólks skipta FHSS sköpum í kjarabaráttunni.
Virðingarfyllst,
Stjórn FHSS