Skrifstofa félagsins hlaut regnbogavottun
Markmiðið með vottuninni er að gera starfsemina hinseginvænni, bæði fyrir starfsfólk og þjónustuþega
Skrifstofa Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, sem rekin er sameiginlega með fjórum öðrum stéttarfélögum undir heitinu Þjónustuskrifstofa FHS, hlaut á dögunum Regnbogavottun Reykjavíkurborgar. Markmiðið með vottuninni er að gera starfsemina hinseginvænni, bæði fyrir starfsfólk og þjónustuþega og þannig koma í veg fyrir beina og óbeina mismunun í garð hinsegin fólks.
Regnbogavottunin byggir á sambærilegum vottunarferlum og hjá t.d. Human Rights Campaign, Stonewall UK og RFSL í Svíþjóð þar sem skilyrði eru sett um að stefnur fyrirtækja nefni hinsegin fólk og að réttindi og jöfn staða hinsegin starfsfólks séu tryggð. Til þess að bæta starfsumhverfið sem og þjónustuna fyrir hinsegin fólk er fræðsla um hinsegin málefni og ríkjandi viðmið í samfélaginu. Einnig er leitað leiða til að gera starfsemina hinseginvænni.
Ferlið sjálft felur í sér spurningalista um starfsstaðinn, úttekt á skrifstofurýminu, fræðslu fyrir starfsfólk og endurgjöf. Aðgerðaáætlun Þjónustuskrifstofu FHS er í ellefu liðum og verður endurskoðuð árlega.
Georg Brynjarsson, framkvæmdastjóri.„Félagsfólk okkar er nú yfir sjö þúsund talsins og hópurinn fer ört stækkandi. Við fundum fyrir ákalli, ekki síst frá yngra félagsfólki, um að stéttarfélög geri það sýnilegt að þau búi yfir þekkingu og getu til að þjónusta allt félagsfólk, þar með talið hinsegin fólk á vinnumarkaði. Vottunarferlið var afar skemmtilegt og efniviðurinn úr því verður núna hluti af okkar þjónustustefnu“