Sjálfkrafa fyrning orlofs ólögmæt
Samkvæmt nýlegum dómi Evrópudómstólsins er sjálfkrafa fyrning orlofs ólögmæt.
Niðurstaða dómsins hefur fordæmisgildi og þýðir að atvinnurekandi sem vanrækir að skipuleggja orlofstöku starfsfólks getur ekki borið fyrir sig fyrningarreglur vegna orlofsréttinda sem hafa verið flutt milli ára og safnast upp. Sérhver launamaður á rétt á launuðu orlofi í að minnsta kosti fjórar vikur á hverju ári.
Dómstóllinn segir að orlofsréttindi launafólks fyrnist ekki sjálfkrafa samkvæmt ákvæðum landsréttar nema ljóst megi vera að hlutaðeigandi starfsmanni hafi í raun verið gert kleift af hálfu vinnuveitanda að nýta rétt sinn.
Vinnuveitanda ber þannig að hvetja starfsfólk sitt, formlega ef þörf krefur, og upplýsa með skýrum hætti og tímanlega þannig að orlofið geti veitt starfsmanni þá hvíld og slökun sem það á að stuðla að. Jafnframt að upplýsa um að ótekið orlof geti að öðru kosti fallið niður.
Evrópudómstóllinn lagði áherslu á að við skipulagningu og veitingu orlofs verði líta á starfsmanninn sem veikari aðilann í vinnusambandinu. Vinnuveitandi beri hallann af því ef hann getur ekki sýnt fram á að hann hafi í raun og skilmerkilega gefið stafsmanninum kost á að nýta orlofsrétt sinn. Hann geti ekki borið fyrir sig ákvæði laga um fyrningu kröfuréttinda til þess að komast undan skyldu sinni.