Beint í efni

Sigur í Landsrétti 

Félagsmanni í FHSS dæmdar skaða- og miskabætur fyrir ólögmæta uppsögn 

Þann 24. Nóvember sl. féll dómur í Landrétti sem FHSS rak fyrir félagsmann sinn. Í stuttu máli vannst sigur í málinu en félagsmanninum voru dæmdar rúmlega 23,6 milljónir króna í skaða- og miskabætur eftir ólögmæta uppsögn.

Í dómi Landsréttar kemur fram að með ákvörðun sinni hefði vinnuveitandi komið sér hjá því að leggja málið í þann farveg sem gengið væri út frá í 26. og 27. gr. laga nr. 90/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Vinnuveitandi mótmælti þessum málatilbúnaði og vísaði til þess að ákvörðun um að leggja niður embætti félagsmannsins hefði þegar verið tekin áður vinnuveitanda varð kunnugt um ávirðingar á hendur félagsmannsins. Aðila greindi á um hvenær vinnuveitandi hefði tekið ákvörðun um að leggja niður embætti félagsmannsins. Taldi lögmaður félagsmannsins að vinnuveitandi hefði ekki tekið þá ákvörðun fyrr en með bréfi 31. ágúst 2020 en vinnuveitandi byggði á því að hafa tilkynnt félagsmani um það á fundi 24. júní 2020. Taldi rétturinn að vinnuveitandi hefði ekki tekist að sanna að starfslok félagsmannsins hefðu þegar verið ákveðin 24. júní 2020. Ráðið yrði af skýrslu félagsmannsins í héraði og gögnum málsins að ávirðingar á hendur hans hafi haft veruleg áhrif á ákvarðanir vinnuveitanda um störf félagsmannsins á vinnustaðnum. Var lagt til grundvallar að ekki hefðu verið aðrar efnislegar forsendur en ávirðingar félagsmannsins sem hefðu ráðið því að vinnuveitandi ákvað að leggja niður embætti hans. Við þessar aðstæður hafi vinnuveitandi borið að fara með málið í samræmi við 26. og 27. gr. laga nr. 90/1996.

Niðurstaða Landsréttar var því sú að ákvörðun vinnuveitanda um að leggja niður embætti félagsmannsins hafi ekki verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og telst því ólögmæt. Féllst Landsréttur á að félagsmaðurinn ætti rétt til skaðabóta vegna fjártjóns sem næmi eftirstandandi launum á skipunartíma hans í embættinu. Var vinnuveitandi dæmdur til að greiða félagsmanni 22.150.805 krónur í skaðabætur og 1.500.000 krónur í miskabætur.