FHSS í samstarf við Félag starfsmanna Alþingis og Starfsmannafélag Ríkisendurskoðunar
Aukinn styrkur í samstarfi líkra hópa

Meginstyrkur launtakahreyfinga fyrir bættum hag og við réttindavörslu hvers konar hlýst af því að sameina krafta þeirra aðila og faghópa sem hafa líkra hagsmuna að gæta í kjarabarráttu sinni. Mikilvægt er að stéttarfélög hafi á að skipa þekkingu, hæfni og styrk til að mæta síbreytilegum kröfum í starfsumhverfi félaga sinna. Styrkur stétta er háður samtakamætti þeirra sem innan hvers faghóps starfar og að hópurinn sé sameinaður en ekki sundurleitur og dreifður. Því sannast enn hið forkveðna: sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér.
Nýlega gerðu Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins og Stéttarfélag lögfræðinga samstarfssamning við Félag starfsmanna Alþingis og Starfsmannafélag Ríkisendurskoðunar. Um tímamótasamning er að ræða á meðal þeirra hópa sem starfa almennt við æðstu stjórnsýslu Íslands.
Um er að ræða hópa fólks sem starfar náið með stjórnvöldum, við hlið stjórnvalda eða hefur eftirlit með stjórnvöldum. Hópur sem hefur líkra hagsmuna að gæta en starfar undir ákveðinni hættu eða réttindaskerðingu sem aðrir almennt búa ekki við. Hópur sem býr að jafnaði við mikla sérstöðu á íslandi en nýtur engu að síður lítillar sérstöðu ólíkt því sem á við víðast hvar í nágrannalöndum okkar.
Það er því með stolti og af ríkri gleði að FHSS og SL kynna ákveðin tímamót í sinni sögu þar sem þessir ólíku hópar sem koma að störfum við æðstu stjórnsýslu gera með sér samstarfssamning. Samningurinn styrkir stöðu þessa hóps til muna og kemur til með að bæta hag og réttindavörslu hans til muna.