Orlofshús fyrir fólk með skerta hreyfigetu tekið í notkun
Í sumar opnaði Orlofssjóður BHM (OBHM) fyrir bókanir í nýtt orlofshús í Brekkuskógi. Húsið ber heitið H-hús 28 og var sérstaklega byggt og hannað fyrir fólk með skerta hreyfigetu.
Húsið er 86,8 fermetrar og í því eru m.a. rafknúnar gardínur, ljós, gluggar og hurðar og engir þröskuldar. Þrjú svefnherbergi eru í húsinu með sex svefnplássum.
Afleggari að húsinu er malarvegur með miklum halla sem erfitt er að komast yfir nema með bíl en það er rúmgóð verönd umhverfis húsið með upphituðu bílastæði og góðu aðgengi að útidyrahurð. Rafknúin dyraopnun er á útidyrahurð og í aðalsvefnherbergi er m.a. sjúkrarúm með rúmgálga og rafknúinni fótalyftu ásamt hækkanlegu og lækkanlegu hliðarborði. Inn á baðherbergi er rafknúið skolsalerni með fjarstýringu og veggstoðum. Í sturtu á baðherbergi er sturtustóll með baki og örmum og veggfest handföng. Út úr stofunni er útgengt út á verönd með rafknúinni dyraopnun. Eldhúsinnréttingin í húsinu er með upphækkanlegu eldhúsborði með vaski og eldavél og fjarstýringu til að stýra eldhúsviftu. Á verönd er heitur pottur og í geymslu hússins má finna standlyftara og flutningsbelti sem hægt er að nota til þess að auðvelda aðgengi fólks ofan í heita pottinn.
Það er von FHSS að þetta nýja og glæsilega hús í Brekkuskógi nýtist félagsfólki og öðrum sjóðfélögum í OBHM sem best. FHSS óskar stjórn, starfsfólki og sjóðfélögum orlofssjóðsins innilega til hamingju með þessa vel heppnuðu framkvæmd.