Kjarasamningur við ríkið framlengdur
FHSS hefur skrifað undir skammtímasamning við ríkið.
Rétt í þessu skrifuðu formenn Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins (FHSS), Félags íslenskra félagsvísindamanna (FÍF), Fræðagarðs (FRG), Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga (SBU) og Stéttarfélags lögfræðinga (SL) undir samkomulag við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs um breytingar og framlengingu á kjarasamningi félagsins við ríkið. Um er að ræða skammtímasamning sem gildir frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024.
Í samkomulaginu er aðaláherslan lögð á launahækkanir og kjarabætur. Einnig fylgir samningnum verkáætlun um áframhaldandi viðræður á samningstímanum og eftirfarandi yfirlýsing frá FHSS:
Yfirlýsing FHSS
Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hefur skrifað undir skammtímasamning til tólf mánaða með það að markmiði að tryggja félagsfólki sínu nauðsynlega og tafarlausa kjaraleiðréttingu og um leið gefa stjórnvöldum andrými til þess að ná stjórn á núverandi verðbólguástandi.
Í þessari kjarasamningalotu lagði samninganefnd ríkisins áherslu á að fylgja eftir niðurstöðu kjarasamninga ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Samningarnir í ár framlengja svonefnda lífskjarasamninga frá 2019 sem einkum fólu í sér hófstilltar launahækkanir í skiptum fyrir lífskjarabætur á borð við styttingu vinnuvikunnar.
Eftir að hafa reynt til hins ýtrasta að bregðast við þröngum aðstæðum á vinnumarkaði og hnika afstöðu samninganefndar ríkisins, telur samninganefnd félagsins að ekki verði lengra komist að sinni. Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins bendir þó á að áhersla á krónutöluhækkanir og hófstilltar kjarasamningsbundnar launahækkanir hafi almennt til lengri tíma litið óæskileg áhrif á tekjur háskólamenntaðra og verðgildi háskólamenntunar. Hlutfallslega lágar ævitekjur háskólamenntaðra draga úr hvata einstaklinga til háskólanáms, með neikvæðum áhrifum á háskólana, atvinnulífið og þjóðarhag.
Kosning og kynning
Kosning um samninginn er nú hafin og getur félagsfólk skráð sig með rafrænum skilríkjum inn á bhm.is/kosning og greitt þar atkvæði. Frestur til að greiða atkvæði rennur út mánudaginn 24. apríl kl. 10:00. Samningurinn hefur verið sendur á félagsfólk í tölvupósti.
Kynningarfundir verða haldnir miðvikudaginn 19. apríl frá kl. 16:00 til 16:30 og föstudaginn 21. apríl frá kl. 10:00 til 10:30 í gegnum Teams.
Krækja á fund miðvikudaginn 19. apríl frá kl. 16:00 til 16:30.
Krækja á fund föstudaginn 21. apríl frá kl. 10:00 til 10:30.