Beint í efni

Yfirlýsing frá stjórn FHSS

Stjórn félagsins gefur út yfirlýsingu varðandi tilnefningar á sendiherrum

Í tilefni frétta þess efnis að utanríkisráðherra hafi tilnefnt aðila sem ekki koma úr utanríkisþjónustu Íslands sem sendiherra, í mikilvæg embætti íslenskrar utanríkisþjónustu, vill stjórn Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins (FHSS) árétta að slíkar skipanir hljóta alltaf að vera undantekning frá hinni almennu reglu að sendiherrar Íslands á erlendri grund komi úr hópi starfsfólks utanríkisþjónustunnar.

Heimild ráðherra til að skipa sendiherra tímabundið varð að lögum 15. desember 2020, þegar lög nr. 161/2020 um breytingu á lögum um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, voru samþykkt á Alþingi. FHSS sendi inn umsagnir um frumvarpið í tvígang, á 150. og 151. löggjafarþingi.

Í umsögnum sínum benti FHSS á að einstaka atriði frumvarpsins virtust ganga gegn jafnræðissjónarmiðum, þ. á m. 2. og 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins sem heimila ráðherra að skipa sendiherra tímabundið til allt að fimm ára í senn til að veita tiltekinni sendiskrifstofu forstöðu eða gegna hlutverki sérstaks erindreka, auk þess að skipa sendifulltrúa tímabundið í embætti sendiherra meðan hann gegnir starfi forstöðumanns sendiskrifstofu. Í umsögn félagsins frá 150. löggjafarþingi segir:

„Í frumvarpinu eru ástæður fyrir ofangreindum tillögum raktar m.a. með vísan til þeirra sjónarmiða að mikilvægt sé að nýta sérþekkingu og reynslu einstakra aðila við skipun í sendiherrastöðu. Að mati FHSS teljast slíkar ástæður ekki vera reistar á svo málefnalegum grunni að það víki til hliðar almennum jafnræðissjónarmiðum sem liggja til grundvallar almennri auglýsingaskyldu um laus störf hjá ríkinu. Þá er jafnframt hætta á því að slíkar ráðstafanir, sem eiga samkvæmt frumvarpinu að vera tímabundins eðlis, verði gerðar að meginreglu í framkvæmd fremur en undantekningu.

FHSS telur að með slíkum ráðstöfunum sé gengið á þá hagsmuni almennra félagsmanna FHSS að ætíð sé skipað í lausar opinberar stöður út frá jafnræðissjónarmiðum og almennum málefnalegum grundvelli sem telst orðinn sjálfsagður og jafnframt lögbundinn í nútíma starfsumhverfi. Félagið telur jafnframt að verði frumvarpið samþykkt óbreytt sé tekið skref til baka í þeim efnum, þ.e. til úrelts starfsumhverfis þegar slík réttindi opinberra starfsmanna voru gjarnan virt að vettugi.“

Stjórn FHSS stendur að fullu við þessar umsagnir og lýsir yfir vonbrigðum með að svo virðist sem þessar spár félagsins í umsögnum til Alþingis séu nú að raungerast. Félagið áréttar að hvað sem undantekningarákvæðum í lögum líði sé það, til lengri tíma litið, íslensku samfélagi á engan hátt til hagsbóta að æðstu ráðamenn líti framhjá almennum jafnræðisreglum og skipi ekki í æðstu embætti stjórnsýslunnar á grundvelli sams konar hæfismats og framgangsreglum sem við á um starfsfólk Stjórnarráðsins almennt og starfsfólk utanríkisþjónustunnar sérstaklega.

Virðingarfyllst,

stjórn FHSS.