Beint í efni

Vel heppnuðum félagsfundi lokið

Félagsfundur ályktar um hagræðingarkröfu stjórnvalda

Félagsfundur FHSS fór fram síðdegis í gær 30. október í Borgartúni 6, fundurinn var stað- og fjarfundur og mættu um 50 manns á fundinn.

Á fundinum fóru Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur BHM, og Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, yfir lífeyrismál opinberra starfsmanna. Þá hélt Hjalti Einarsson, verkefnastjóri kjaramála hjá FHSS, tölu um komandi kjaraviðræður. Undir þeim dagskrárlið lagði stjórn FHSS fram eftirfarandi ályktun vegna hagræðingarkröfu ríkisins sem var samþykkt af fundinum.

Ályktun félagsfundar FHSS um hagræðingarkröfu stjórnvalda​

Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins (FHSS) geldur varhug við því að gerð sé íþyngjandi einsskiptis aðhaldskrafa á ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands án mótvægisaðgerða, líkt og boðað hefur verið. Slík aðhaldskrafa mun óhjákvæmilega koma niður á getu ráðuneyta til að sinna þeim fjölmörgu aðkallandi verkefnum sem unnin eru í ráðuneytunum og hafa vaxið mjög að umfangi m.a. í takt við öra fjölgun þjóðarinnar. ​

Verði aðhaldskrafa stjórnvalda á ráðuneytin að veruleika gerir FHSS tvær sanngirniskröfur:​

Launakostnaður utanaðkomandi ráðgjafa sem ráðnir verða inn í tímabundin verkefni verði framvegis ekki greiddur af rekstrarfé viðkomandi ráðuneytis. Laun slíkra verkefnaráðinna starfskrafta skal greiða af fjárlagaliðum viðkomandi verkefna. ​

Verkefnum ráðuneytis verði skýrt forgangsraðað og verkefni minnkuð að umfangi, frestað eða felld burt, til samræmis við fækkun starfsfólks. Meginreglan verði að starfsfólk verði ekki fyrir auknu verkefnaálagi vegna aðhaldskröfunnar heldur verði lögð áhersla á að yfirstjórn ráðuneyta fækki verkefnum og/eða minnki umfang þeirra verkefna sem sinnt er.

Að lokum sagði Steinar Örn Steinarsson, formaður FHSS, félagsfólki frá sameiningarviðræðum milli FHSS og FSS ásamt fyrirhugaðri sameiningu hjá samstarfsstéttarfélögum FHSS.

Stjórn félagsins þakkar félagsfólki fyrir góðan fund.